Hvers vegna þarf DNA próf?
Með tilkomu DNA prófa er hægt að skoða erfðakóða Coton de tulear hunda fyrir fyrirfram þekktum sjúkdómum eða áhættu á þekktum sjúkdómum sem fundist hafa í tegundinni. Þessi próf nota ábyrgir ræktendur til að taka skynsamlegar ákvarðanir um framtíðarræktun sína og er ávinningurinn ómetanlegur – heilbrigðir hvolpar sem að eiga eftir að njóta lífsins með sínu fólki.
En hvernig virka DNA próf og þarf ég á þeim að halda?
Hver hundur hefur 78 litninga, 39 frá hvoru foreldri. Þau próf sem við notum í dag skoða fyrirfram þekkt gen og niðurstöður segja hvort hundurinn hafi erft stökkbreytt gen frá; hvorugu foreldri, öðru foreldri eða báðum. Einnig er þeim skipt í víkjandi stökkbreytingu og ríkjandi stökkbreytingu. Víkjandi stökkbreytt gen þýðir að hundur verður að erfa tvö eintök af geninu (eitt frá móður sinni og eitt frá föður sínum) til að fá sjúkdóminn. Ríkjandi stökkbreytt gen þá þarf aðeins eitt eintak af stökkbreyttu geni til að eiga áhættu að þróa með sér sjúkdóminn. Þetta hefur áhrif á ræktun og þarf að passa mjög vel að para ekki hunda sem bera sama ríkjandi stökkbreytt gen eða sömu víkjandi stökkbreytingu. Þá skapast sú hætta að það fæðist hvolpar í áhættu að veikjast eða sýktir af alvarlegum sjúkdómi.
Niðustöður erfðaprófa segja til um hvort hafi fundist stökkbreytt gen eða ekki. Eru þau skilgreind: A (hreinn/normal)/ N/N: Þessir hundar eru með tvö eintök af venjulegu geni og munu hvorki þróa með sér sjúkdóminn né bera stökkbreytingu yfir í afkvæmi. B (beri/engin áhætta) Þessir hundar hafa eitt eintak af venjulegu geni og eitt af víkjandi stökkbreytingunni sem tengist umræddum sjúkdómi. Stökkbreytingin berast að meðaltali til 50% afkvæma en mun ekki sýkja afkvæmin. B hunda má þó alls ekki para saman við aðra B hunda með sömu stökkbreytingu svo að hætta skapist ekki á að sjúkdómurinn verði virkur í afkvæmum þeirra. B (beri/áhætta) þá nægir eitt gen og mun stökkbreytta genið berast í 50% afkvæma og eiga þau afkvæmi í áhættu að þróa með sér sjúkdóminn sem um ræðir og bera stökkbreytta genið í hluta afkvæma sinna. C (áhætta/sýktur): Þessir hundar eru með tvö eintök af stökkbreytingunni og eru annað hvort sýktir af sjúkdóminum eða í áhættu á að þróa með sér eða veikjast af sjúkdóminum sem umræðir.
En af hverju ræktum við þá ekki bara arfhreina hunda af þeim genum sem við þekkjum?
Það er mjög eðlileg spurning og sumum finnst furðulegt að gera það ekki. Ræktendur sem eru að hefja sína hundaræktun geta með ábyrgum hætti passað upp á að undaneldisdýrin séu arfhrein og án erfðasjúkdóma með því einu að erfðaprófa undaneldisdýrin sín. En ástæður að berar víkjandi sjúkdóma eru stundum notaðir til ræktunar eru margvíslegar. Ein er sú að við þurfum að passa upp á erfðafræðilega fjölbreytni án þess að gefa eftir í heilbrigði tegundarinnar. Að rækta algjörlega arfhreina hunda svo kynslóðum skiptir getur haft veruleg áhrif á erfðafjölbreytni innan tegundar, aukið skyldleikaræktun og aukið líkurnar á nýjum arfgengum sjúkdómum sem hafa alvarlegar afleiðingar og við höfum hvorki mælitæki eða lyf til meðhöndlunar. Annað er að útiloka hunda úr ræktun þrátt fyrir að hafa góða hundakosti og vegna erfðaprófanna að afkvæmi þeirra munu ekki veikjast af sjúkdóminum og aðeins um helmingur afkvæmanna verða berar án þess að það hafi áhrif á þeirra heilbrigði. Þegar vitað er um þekkta víkjandi sjúkdóma getur ræktandinn ákveðið að para hund sem er beri við hund sem hefur ekki sömu stökkbreytingu og haldið áfram með þá marga kosti sem að hundarnir hafa t.d. almenna heilsu og skapgerð án þess að heilbrigði afkvæmanna séu lögð í hættu. Þess vegna er mikilvægt að undaneldisdýr séu erfðaprófuð því að nokkrir víkjandi erfðasjúkdómar eru þekktir í Coton stofninum á Íslandi og er það á ábyrgð hvers ræktanda að para ekki saman hunda með sömu stökkbreytinguna og skapa því áhættu fyrir afkvæmin sem fæðast. Þess má geta að erfðapróf foreldra eru tekin gild ef að þau eru hrein en aðeins í einn ættlið, eftir það þurfa að fara fram ný próf. Mikilvægt er að skoða vel hundana sem á að para, hugsa fyrst og fremst út frá heilbrigði afkvæmanna og erfðafræðilegri fjölbreytni þeirra, skapgerð og kosti foreldra sem afkæmin munu erfa. Markmiðið ætti ávallt að vera að rækta heilbrigðan og góðan stofn af hundum.
Til að styðja við heilbrigði tegunda og undaneldisdýra er Hundaræktunarfélag Íslands með ræktendaviðmið fyrir hverja tegund og hafa sumar tegundir þau viðmið að erfðaprófa þurfi undaneldisdýr áður en ræktað sé undan þeim og hvolpar fái ættbókarskráningu. Einnig stendur félagið fyrir augnskoðun 3x á ári. Þá koma erlendir dýralæknar og augnskoða fyrir arfgengum sjúkdómum sem finnast í ýmsum tegundum. Margir af þeim sjúkdómum sem að dýralæknarnir eru að leita eftir er ekki hægt að erfðaprófa fyrir í dag. Því er augnvottorð eitt af þeim frumskilyrðum til að fá útgefna ættbók frá HRFÍ.
En hvernig er almennt heilsufarið á Coton de tulear á Íslandi? Coton de tulear hundar eru taldir heilsuhraustir og glaðir hundar hér sem og erlendis. Ekki eru þekkt heilsfarsvandamál í stofninum eins og hefur komið upp í öðrum hundategundum. En eins og algengt er með smáhunda þá getur komið hnéskeljalos og er það greint af dýralækni. Oftast er um lítið los að ræða og hundurinn finnur sér ekkert mein en ef los er meira þá er oftast hægt að leysa það með vægum inngripum s.s. bólgueyðandi verkjalyfjum, þyngdarstjórnun og léttri hreyfingu en ef los er meira og orðið vandamál gæti þurft að grípa til skurðaðgerðar. Ekki er talið að stór inngrip hafi þurft á Coton hér á landi. Fáir víkjandi erfðasjúkdómar eru í stofninum á Íslandi því er mikilvægt að vita hvort þau undaneldisdýr sem á að para beri nokkuð sömu víkjandi stökkbreytinguna til að tryggja heilbrigði afkvæmanna. Ábyrgðfullir ræktendur og upplýstir hvolpakaupendur eru gulls ígildi.
Við fjölskyldan sem eigum Daney Coton gerum okkar besta til að rækta heilsuhrausta hunda, með öllum þeim tækniframförum og vitneskju sem þekkist í dag. Okkar hundar eru erfðaprófaðir fyrir þekktum sjúkdómum í Coton de tulear, einnig hnéskelja- og augnskoðaðir þegar þeir hafa aldur til. Hægt er að nálgast vottorðin og niðurstöður erfðaprófa hér á síðunni.
https://www.hillspet.com/dog-care/healthcare/luxating-patella-in-dogs https://www.instituteofcaninebiology.org/whats-in-the-gene-pool.html http://www.hrfi.is/